Mál nr. 421/2018

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Sigurður Ólafsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Inga Lillý Brynjólfsdóttir lögmaður.)
Lykilorð
 • Kærumál.
 • Farbann.
 • Útlendingur.
Útdráttur

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100 gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 14. maí 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 2018, í málinu nr. R-[…]/2018, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 6. júní næstkomandi klukkan 16. Kæruheimild er í l-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
 2. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
 3. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.

  Niðurstaða
 4. Með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins er fallist á það með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk tilgreindra ákvæða umferðarlaga. Sannist sök getur brot af þessu tagi varðað fangelsi. Almennu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt.
 5. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili verið yfirheyrður af lögreglu, auk þess sem teknar hafa verið skýrslur af vitnum. Ekki hefur þó reynst unnt að taka skýrslu af brotaþola, eins og þar er nánar rakið. Þá mun enn vera ólokið rannsókn bifreiða og blóðsýnis sem varnaraðili gaf vegna málsins.
 6. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem kom hingað til lands sem ferðamaður, en hefur engin tengsl við landið að öðru leyti. Í málinu liggja hins vegar fyrir upplýsingar um heimilisfang hans í heimalandinu, vinnustað, símanúmer og netfang.  Hefur ekkert komið fram í málinu sem leiðir líkur að því að hann muni reyna að leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, ef til þess kæmi. Eins og málinu er háttað þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti áfram farbanni. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.


Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 11. maí 2018

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að varnaraðila, X, fæddum […], verði gert að sæta áfram farbanni, allt til föstudagsins 6. júlí nk., kl. 16:00.

I

Í greinargerð lögreglustjóra segir að málið varði meint hegningar- og umferðarlagabrot varnaraðila laugardaginn 28. apríl sl. Lýsir lögreglustjóri atvikum svo að rétt fyrir hádegi nefndan dag hafi ökumaður bifreiðarinnar […], A, stöðvað bifreið sína við vegöxl á Reykjanesbraut á móts við Tjarnarvelli í Hafnarfirði og farið út úr bifreiðinni til þess að fjarlægja bolta af veginum sem valdið hafi truflun fyrir ökumenn. Bifreiðinni […] hafi verið ekið á eftir bifreiðinni […] og hafi ökumaður hennar einnig stöðvað bifreið sína og síðan tendrað viðvörunarljós (hazardljós) öðrum vegfarendum til viðvörunar. Skömmu síðar hafi bifreiðin […], sem var með hestakerruna […] í eftirdragi, komið að og hafi ökumaður hennar afráðið að fara yfir á öfugan vegarhelming og framhjá hinum kyrrstæðu bifreiðum, fyrst […] svo […].  Í nær sömu andrá hafi varnaraðili, sem ekið hafi bifreiðinni […] fyrir aftan bifreiðina [….] og hestakerruna, komið og ekið aftan á bifreiðina […] sem við það hafi kastast á A. Við höggið hafi A hlotið lífshættulega áverka. Ökumaður bifreiðarinnar […] og varnaraðili hafi einnig slasast í árekstrinum og hafi hinir slösuðu allir verið fluttir á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar.

Lögreglustjóri segir yfirheyrslum yfir varnaraðila og vitnum að mestu lokið og telji lögregla atburðarásina liggja nokkuð ljósa fyrir. Ekki hafi þó reynst unnt að taka skýrslu af A […]. Þá eigi enn eftir að framkvæma bíltæknirannsóknir á bifreiðunum, rannsaka ætlaðan ökuhraða bifreiðanna, rannsaka blóðsýni sem varnaraðili hafi gefið í þágu rannsóknar málsins o.fl.

II

Lögreglustjóri bendir á að í framburði varnaraðila, sem sé bandarískur ríkisborgari og ferðamaður hér á landi, hafi komið fram að hann hafi komið hingað til lands sama dag og slysið varð. Varnaraðili hafi verið að koma frá Keflavíkurflugvelli og verið á leið í húsnæði sem hann hafi verið búinn að taka á leigu. Varnaraðili hafi síðan ætlað að ferðast hringinn í kringum landið og yfirgefa landið aftur 4. maí sl. Hinn 2. maí sl. hafi varnaraðili hins vegar verið úrskurðaður í farbann til dagsins í dag með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-[…]/2018.

Lögreglustjóri segir brýnt að tryggja nærveru varnaraðila á meðan mál hans sé til rannsóknar og annarrar meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi. Varnaraðili sé sakaður um alvarlega háttsemi. Samkvæmt framansögðu sé hann ferðamaður hér á landi með engin tengsl við landið. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að varnaraðila verði gert að sæta farbanni þar til málið hefur verið til lykta leitt, ella megi ætla að hann reyni að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Krafa lögreglustjóra sé samkvæmt þessu á því byggð að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt í málinu, enda sé varnaraðili undir rökstuddum grun um háttsemi sem varðað geti fangelsisrefsingu.

III

Með vísan til alls framangreinds og gagna málsins er á það fallist að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Varnaraðili er erlendur ríkisborgari með engin tengsl við Ísland. Í ljósi þess þykir mega ætla að varnaraðili muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. ákvæði 1. mgr. 100. gr. sömu laga, svo fallist verði á kröfu lögreglustjóra. Ljóst er að um er að ræða mjög íþyngjandi ráðstöfun fyrir varnaraðila. Að því gættu þykir rétt að marka farbanni varnaraðila skemmri tíma en krafist er, enda ætti sá tími sem í úrskurðarorði greinir að nægja lögreglu til þess að ljúka rannsókninni að mestu leyti og upplýsa enn betur en þegar hefur verið gert um þátt varnaraðila í málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, X, skal sæta farbanni allt til miðvikudagsins 6. júní nk., kl. 16:00.