Mál nr. 289/2018

Kortaþjónustan hf. (Tómas Jónsson lögmaður)
gegn
Arion banka (Kristinn Hallgrímsson lögmaður), Borgun hf. (Stefán A. Svensson lögmaður), Íslandsbanka hf. (Hörður Felix Harðarson lögmaður), Landsbankanum hf. (Víðir Smári Petersen lögmaður) og Valitor hf. (Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður)
Lykilorð
 • Kærumál.
 • Frávísunarúrskurður staðfestur.
 • Kröfugerð.
 • Aðild.
 • Vanreifun.
 • Lögvarðir hagsmunir.
Útdráttur

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli K hf. gegn A hf., B hf., Í hf., L hf. og V hf. var vísað frá dómi. Kröfugerð K hf. var sett fram í aðalkröfu og tveimur varakröfum til heimtu skaðabóta vegna samkeppnislagabrota með óbeinni samvinnu um ákvörðun milligjalda milli útgefenda á greiðslukortum, en að þeim kröfum frágengnum með þrískiptri kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu vegna þeirrar háttsemi. Í úrskurði Landsréttar kom meðal annars fram að samkvæmt d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála bæri að greina í stefnu svo glöggt sem verða mætti dómkröfur og málsástæður sem málsókn byggðist á, svo og önnur atvik sem þyrfti að geta til þess að samhengi málsástæðna yrði ljóst. Í þessum áskilnaði hefði verið talið felast að ljóst yrði að vera hvaða samhengi væri milli kröfugerðar, lýsingar á málsástæðum og málatilbúnaðar að öðru leyti. Málatilbúnaður K hf. í aðalkröfu var ekki talinn uppfylla þessar kröfur og taldir voru svo verulegir annmarkar á honum að ekki yrði hjá því komist að vísa þeirri kröfu frá héraðsdómi. Þá þótti K hf. heldur ekki hafa lagt slíkan grundvöll að varakröfum sínum um greiðslu bóta að unnt væri að ákvarða fjárhæð þeirra að mati dómsins og var þeim kröfum því einnig vísað frá héraðsdómi. Loks var K hf. ekki talin hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni af dómi fyrir kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu og var þeirri kröfu því einnig vísað frá héraðsdómi. Niðurstaða hins kærða úrskurður var því staðfest.

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir og Sigurður Tómas Magnússon kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 14. mars 2018, sem barst héraðsdómi næsta dag en kærumálsgögn bárust Landsrétti 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2018 í málinu nr. E-3081/2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j-lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
 2. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og að málinu verði vísað heim í hérað til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu, óskipt úr hendi varnaraðila, í héraði og fyrir Landsrétti, vegna þessa þáttar málsins.
 3. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
  Málsatvik
 4. Samkeppniseftirlitið hóf á árinu 2006 rannsókn á samkeppnislagabrotum Greiðslumiðlunar hf. (nú Valitor hf.), Kreditkorts hf. (nú Borgun hf.) og Fjölgreiðslumiðlunar hf. (síðar Greiðsluveitan hf.) í greiðslukortaviðskiptum, einkum á árunum 2002 til 2006. Með sáttum við Samkeppniseftirlitið viðurkenndu þessi fyrirtæki ýmis brot gegn 10., 11. og 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og gengust undir sektargreiðslur. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 frá 10. janúar 2008 var greint frá niðurstöðu málsins en þar sagði meðal annars að þessir aðilar hefðu haft með sér ólögmætt samráð um afmarkaðar aðgerðir í því skyni að vinna gegn innkomu sóknaraðila og hins erlenda samstarfsaðila hans á markað fyrir færsluhirðingu og tengda starfsemi og síðan að hrekja þá út af markaðnum. Umrædd samkeppnislagabrot voru talin mjög alvarleg og umfangsmikil og fólu meðal annars í sér tæknilegar og viðskiptalegar hindranir. 
 5. Sóknaraðili höfðaði mál gegn framangreindum þremur fyrirtækjum með stefnu 16. desember 2014 og krafðist skaðabóta vegna þeirra samkeppnislagabrota sem fjallað var um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008. Málinu lauk með dómsátt við sóknaraðila 3. mars 2015 en samkvæmt henni skyldu stefndu greiða honum samtals 250.250.000 krónur.
 6. Í kjölfar erindis sóknaraðila 3. apríl 2009 hóf Samkeppniseftirlitið rannsókn á meintum samkeppnislagabrotum varnaraðila á greiðslukortamarkaði, meðal annars ætluðu ólögmætu samráði útgefenda í tengslum við ákvörðun milligjalda og meintri samtvinnun á færsluhirðingu og vildarkjörum VISA-korthafa. Rannsókn þessari lauk með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015 sem byggði á sáttum sem varnaraðilar gerðu við Samkeppniseftirlitið vegna málsins 9. júlí, 20. ágúst og 15. desember 2014. Í ákvörðuninni kom meðal annars fram að fyrirkomulag um ákvörðun milligjalda hafi falið í sér óbeina samvinnu um verð milli útgefenda á greiðslukortum á því tímabili sem rannsóknin beindist að en um var að ræða tímabilið frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2009. Þetta óbeina samstarf hafi falist í því að útgefendur, sem voru stóru bankarnir þrír, hafi með samningum falið annars vegar Borgun hf. og hins vegar Valitor hf. að ákvarða í verðskrám milligjöld vegna notkunar VISA- og MasterCard-greiðslukorta. Í framkvæmd hafi umrædd milligjöld verið ákvörðuð með samræmdum hætti. Jafnframt hafi þetta fyrirkomulag falið í sér að á vettvangi samtaka fyrirtækjanna tveggja, Borgunar hf. og Valitor hf., hafi átt sér stað samvinna og framkvæmd sem ekki hafi verið í samræmi við 12. gr. samkeppnislaga.
 7. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðilum með stefnu 13. janúar 2015 til greiðslu skaðabóta á svipuðum grundvelli og hann krefst bóta í þessu máli. Í því máli var byggt á sömu matsgerð dómkvaddra matsmanna og gert er í þessu máli. Með dómi Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli 239/2017 var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur með þeim rökum að verulega skorti á að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um aðkomu og hlutdeild Teller A/S í viðskiptum sóknaraðila á því tímabili sem um ræddi, ekki síst hvað varðaði eðli og inntak samstarfs um færsluhirðingu og greiðslu milligjalda. Lægi ekkert fyrir um það hvort sóknaraðili eða hið danska félag hefði greitt milligjöldin sem væri grundvöllur þess tjóns sem sóknaraðili freistaði að fá staðfest með matsgerð og þar með hvort sóknaraðili væri bær til þess að standa einn að málsókn sinni á hendur varnaraðilum í þeim farvegi sem hann hefði sjálfur markað henni. Var málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti talinn svo óljós og vanreifaður að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
 8. Varnaraðilar telja að sóknaraðili hafi ekki bætt úr framangreindum ágöllum í máli þessu og var málinu vísað frá héraðsdómi meðal annars á þeirri forsendu.
  Niðurstaða
 9. Sóknaraðili telur sig eiga rétt til skaðabóta, óskipt úr hendi varnaraðila, einkum vegna ólögmæts samstarfs þeirra í tengslum við ákvarðanir um fyrirkomulag milligjalda í debetkortaviðskiptum á árunum 2002 til 2013. Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn einkum á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 frá 30. apríl 2015, sáttum varnaraðila við Samkeppniseftirlitið sem ákvörðunin byggði á, andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins 8. mars 2013 í sama máli og matsgerð dómkvaddra matsmanna 30. júní 2016.
 10. Sóknaraðili hefur í máli þessu lagt fram samstarfssamning sinn við danska fyrirtækið PBS International A/S, undirritaðan í ágúst og september 2002, varðandi færsluhirðingu greiðslukorta en hann kveður fyrirtækið Teller A/S hafa tekið yfir hlutverk fyrrnefnda félagsins varðandi færsluhirðingu hér á landi eftir samruna 8. september 2010. Sóknaraðili byggir á því að hinir erlendu samstarfsaðilar hans hafi verið færsluhirðar debetkorta og séð um greiðslu milligjalda til útgefenda kortanna. Sóknaraðili hafi hins vegar séð um alla samninga um færsluhirðingu við söluaðila hér á landi, sinnt markaðssetningu og veitt þjónustu í tengslum við fjárhagslegt uppgjör á kortaveltu viðskiptavina sinna. Þá hafi sóknaraðili veitt innlendum söluaðilum alla viðskiptaþjónustu, stýrt tæknilegu skipulagi, metið lánshæfi söluaðila og átt öll samskipti við þá vegna bakfærslna og annarrar skjalavinnu. Sóknaraðili hafi samið sjálfstætt við söluaðila hér á landi um þóknun fyrir þjónustu sína sem hafi numið að lágmarki 0,1% af fjárhæð debetkortafærslna. Sóknaraðili kveður skaðabótakröfu sína við það miðaða að þóknunin hafi verið 0,1% af veltu debetkortafærslna. Sóknaraðili kveðst aðeins krefjast bóta fyrir það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna þóknunartekna sem hann hafi orðið af.
 11. Í ljós hefur verið leitt að sóknaraðili var ekki í stöðu færsluhirðis og greiddi þar af leiðandi ekki milligjöld til kortaútgefenda. Málatilbúnaður hans þykir engu að síður skýr um það að hann hafi átt sjálfstætt tilkall til þóknunar fyrir þjónustu sína við söluaðila sem voru í færsluhirðingu hjá hinum erlenda samstarfsaðila hans og að sóknaraðili hafi orðið fyrir sjálfstæðu tjóni sem felist í því að þóknunartekjur hans hafi í reynd verið minni en þær hefðu orðið ef ekki hefðu komið til samkeppnislagabrot varnaraðila í tengslum við ákvörðun milligjaldanna. Ákvæði 18. gr. laga nr. 91/1991 kemur því ekki í veg fyrir að sóknaraðili geti haft uppi skaðabótakröfu og aðrar þær kröfur sem hann gerir, óháð mögulegri bótakröfu Teller A/S. Málinu verður því ekki vísað frá dómi vegna annmarka á aðild málsins sóknarmegin eða vanreifunar á þeirri aðild.
 12. Í hinum kærða úrskurði er frávísun málsins frá héraðsdómi jafnframt studd þeim rökum að forsendur sameiginlegrar aðildar varnaraðila séu vanreifaðar í stefnu. Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að kröfur hans á hendur öllum varnaraðilum megi rekja til brota þeirra á ákvæðum samkeppnislaga sem leitt hafi til samkeppnishamlandi aðstæðna og viðvarandi ástands sem valdið hafi tjóni. Kröfurnar eigi því sama uppruna. Varnaraðilar beri sameiginlega ábyrgð á tjóninu og sóknaraðili geti því höfðað eitt mál á hendur þeim öllum og krafið hvern þeirra um alla fjárhæð tjónsins óháð því hversu mikil hlutdeild viðkomandi tjónvalds hafi verið í brotinu.
 13. Varnaraðilar byggja frávísunarkröfur sínar meðal annars á því að sóknaraðili hafi ekki gert viðhlítandi grein fyrir sameiginlegri aðild málsins til varnar og sameiginlegri ábyrgð allra varnaraðila á þeim bótakröfum sem sóknaraðili hafi uppi í málinu. Varnaraðili Borgun hf. geti ekki borið ábyrgð á tjóni sem talið yrði leiða af meintri samræmingu milligjalda af hálfu varnaraðilans Valitors hf. og viðskiptabankanna þriggja vegna greiðslukortafærslna sem Valitor hf. hirti og öfugt. Milligjöldin hafi ekki verið samræmd milli varnaraðila Borgunar hf. og Valitors hf. og ekki hafi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verið rætt um innbyrðis samráð á milli þessara aðila.
 14. Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn meðal annars á því að í sáttum sem varnaraðilar gerðu við Samkeppniseftirlitið felist viðurkenning á því að Valitor hf. og Borgun hf. hafi verið samtök fyrirtækja í skilningi 12. gr. samkeppnislaga. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 komi fram að fyrirkomulag um ákvörðun milligjalda hafi falið í sér óbeint samstarf sem falist hafi í því að útgefendur hafi falið varnaraðilunum Borgun hf. og Valitor hf. að ákvarða í verðskrám þau milligjöld sem greidd hafi verið vegna notkunar VISA- og MasterCard-greiðslukorta. Þetta fyrirkomulag hafi falið í sér að á vettvangi umræddra samtaka fyrirtækjanna tveggja hafi átt sér stað samvinna og framkvæmd sem ekki hafi verið í samræmi við 12. gr. samkeppnislaga.
 15. Sóknaraðili telur hvern varnaraðila bera ábyrgð á öllu tjóni hans vegna hlutdeildar þeirra í hinni ólögmætu samvinnu um ákvörðun milligjalda í debetkortaviðskiptum og eru aðalkrafa hans og fyrsta varakrafa á því byggðar. Önnur varakrafa sóknaraðila miðar hins vegar að því að hver varnaraðila greiði honum skaðabætur að mati dómsins en þriðja varakrafan er þrískipt krafa um viðurkenningu á bótaskyldu varnaraðila. Með skírskotun til þess verður að líta á málatilbúnað sóknaraðila á hendur hverjum stefnda sem sjálfstætt sakarefni og fellur það undir efnishlið málsins að fjalla um hvort hver varnaraðili um sig beri bótaábyrgð gagnvart sóknaraðila og eftir atvikum um fjárhæð bóta sem sóknaraðili á rétt á úr hendi hvers varnaraðila. Ekki verður því fallist á með varnaraðilum að málatilbúnaður sóknaraðila hvað varðar aðild þeirra sé vanreifaður.
 16. Af hálfu varnaraðila hefur krafa um frávísun meðal annars verið studd þeim rökum að tengsl kröfugerðar sóknaraðila og málatilbúnaðar hans að öðru leyti hafi ekki verið skýrð með fullnægjandi hætti. Ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl milli ákvarðana um framkvæmd milligjalda í debetkortaviðskiptum sem fjallað var um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og kröfugerðar sóknaraðila. Jafnframt sé matsgerð, sem kröfugerð sóknaraðila grundvallist á, byggð á allt öðrum forsendum en málatilbúnaður sóknaraðila og forsendur matsgerðarinnar auk þess rangar. Þá hafi sóknaraðili ekki skýrt með fullnægjandi hætti í hverju tjón hans sé fólgið, að hvaða leyti um sé að ræða annað fjártjón en varnaraðilar hafi þegar bætt og af hverju kröfur hans taki til mun lengra tímabils og að hluta til annarrar háttsemi en sáttir varnaraðila við Samkeppniseftirlitið tóku til. Í hinum kærða úrskurði var talið að sóknaraðili hefði ekki skýrt með fullnægjandi hætti tengsl kröfugerðar sinnar við þær meginstoðir sem hún væri reist á og það eitt og sér talið nægja til frávísunar málsins.
 17. Í stefnu kveður sóknaraðili málið sprottið af samkeppnislagabrotum varnaraðila á tímabilinu 2002 til 2015. Samkvæmt stefnu er tölulegur grundvöllur skaðabótakröfu sóknaraðila sá að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna tapaðra þóknunartekna á árunum 2003 til 2013 þar sem ólögmæt háttsemi varnaraðila hafi valdið því að markaðshlutdeild hans og erlendra samstarfsaðila hans á sviði færsluhirðingar í debetkortaviðskiptum hafi orðið minni á þessu tímabili og framlegð hans þar af leiðandi minni en ella hefði orðið.
 18. Ekki verður ráðið með skýrum hætti af stefnu til hvaða tímabils hið meinta tjón sóknaraðila tekur. Aðalkrafa sóknaraðila um skaðabætur virðist miða við tímabilið 21. júní 2003 og til framtíðar, eins og það er orðað í stefnu og matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þriðja varakrafa sóknaraðila lýtur hins vegar að viðurkenningu á bótaskyldu varnaraðila vegna tímabilsins 2003 til 2015. Enda þótt eðli starfsemi sóknaraðila á sviði færsluhirðingar hafi samkvæmt gögnum málsins breyst verulega í október 2012, þegar sóknaraðili sleit samstarfinu við Teller A/S og hóf færsluhirðingu á eigin spýtur, er engin grein gerð fyrir því hvort og þá hvaða áhrif þessi breyting hafði á forsendur tjónsútreikninga.
 19. Í stefnu er byggt á því að skaðabótakrafa sóknaraðila og matsgerð dómkvaddra matsmanna miðist við að þóknun hans hafi verið 0,1% af veltu í debetkortaviðskiptum. Sóknaraðili hafi gert ráð fyrir því að fá að lágmarki 0,1% af veltu debetkortafærslna í sinn hlut og hafi áskilið sér að lágmarki það þóknunarhlutfall í samningum við söluaðila. Eina gagnið sem sóknaraðili hefur lagt fram um fyrrnefnt þóknunarhlutfall er skjal sem hann kveður vera áætlun um rekstrartekjur af debetkortafærslum fyrir árin 2003 til 2013. Skjalið ber það hins vegar með sér að vera einhvers konar samanburður annars vegar á væntingum um veltu í debetkortaviðskiptum og þóknun sóknaraðila og hins vegar raunverulegum þóknunartekjum. Ekki verður ráðið af matsbeiðni sóknaraðila eða framlagðri matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem aðalkrafa hans byggist á, að miðað sé við þetta þóknunarhlutfall við útreikninga á tjóni sóknaraðila. Enda þótt varnaraðilar hafi haldið því fram og stutt haldgóðum rökum að í matsgerðinni hafi verið miðað við allt annað og hærra þóknunarhlutfall hefur sóknaraðili ekki gert reka að því að gera nánari grein fyrir tölulegum grundvelli matsgerðarinnar og þar með aðalkröfu sinnar. Tölulegur grundvöllur aðalkröfu sóknaraðila er þannig í mikilvægum atriðum vanreifaður og samhengi kröfugerðar og málatilbúnaðar sóknaraðila að þessu leyti óskýrt.
 20. Í stefnu kemur fram að sóknaraðili hafi óskað eftir því að dómkvaddir matsmenn einskorðuðu mat sitt við það tjón sem ólögleg framkvæmd við ákvörðun milligjalda olli sóknaraðila á markaði með færsluhirðingu debetkorta og að bótakrafa hans í málinu einskorðist jafnframt við það tjón. Af lýsingu á hinni bótaskyldu háttsemi í stefnu má þó ráða að grundvöllur bótakröfunnar sé mun víðtækari. Þar er til að mynda vikið að því að sóknaraðila hafi verið meinaður aðgangur að innlendu greiðslumiðlunarkerfi og að hann hafi orðið fyrir öðrum aðgangshindrunum á þessum markaði. Þá er í málatilbúnaði sóknaraðila lítill sem enginn munur gerður á afleiðingum af hinni ólögmætu ákvörðun milligjalda á færsluhirðinn sjálfan sem annaðist greiðslu milligjaldanna og á sóknaraðila sem hafði með höndum afmörkuð verkefni sem tengdust færsluhirðingunni. Sama óskýrleika gætir í matsbeiðni og matsgerð dómkvaddra matsmanna hvað þetta varðar.
 21. Varnaraðilarnir Valitor hf. og Borgun hf., ásamt Greiðsluveitunni hf., gerðu sem fyrr segir dómsátt við sóknaraðila 3. mars 2015 í máli sem hann höfðaði til heimtu skaðabóta vegna samkeppnislagabrota sem rakin voru í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008. Samkvæmt dómsáttinni skyldu stefndu greiða stefnanda samtals 250.250.000 krónur. Í stefnu í umræddu máli kom fram að fjárhæð bótakröfu byggði á framlegðarmissi sem dómkvaddir matsmenn hefðu talið að sóknaraðili hefði orðið fyrir frá 1. nóvember 2002 og til framtíðar vegna þess að samkeppnislagabrot stefndu í málinu hefðu valdið því að markaðshlutdeild stefnanda varð minni en ella hefði orðið. Í dómsáttinni kom meðal annars fram að hún takmarkaði „þó ekki rétt stefnanda til að hafa uppi skaðabótakröfu vegna annarra meintra brota en þeirra sem rakin eru í ákvörðun nr. 4/2008 og/eða krafist er bóta fyrir í stefnu málsins, þ. á m. vegna meintrar samræmingar milligjalda, sem rakin er í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins frá 8. mars 2013, og annarrar meintrar háttsemi sem þar er rakin, að því gættu“ að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Stefnandi gæti þannig ekki krafist frekari bóta vegna þess tjóns sem þar félli undir, meðal annars alls tjóns sem metið hefði verið í matsgerð 29. október 2013 og teldist uppgert með dómsáttinni.
 22. Þegar litið er til málatilbúnaðar sóknaraðila í máli þessu virðist sem bótakrafa hans sé að hluta til byggð á því að varnaraðilar hafi hindrað aðgengi hans að færsluhirðingarmarkaði á árunum 2002 til 2015 og að það hafi leitt til minni markaðshlutdeildar en ella hefði orðið og samsvarandi tjóns vegna tapaðrar framlegðar. Jafnframt verður ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila að tjón hans vegna framlegðartaps hafi að stærstum hluta orðið til á sama tímabili og það tjón vegna framlegðartaps sem hann fékk bætt með framangreindri dómsátt.
 23. Samkvæmt framansögðu eru dómkröfur í þessu máli og því máli sem lauk með dómsátt 3. mars 2015 byggðar á því að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að markaðshlutdeild hans og þar með framlegð hafi orðið minni en ef ekki hefðu komið til samkeppnislagabrot varnaraðila. Af fyrrgreindri dómsátt verður ráðið að sóknaraðili getur aðeins átt rétt til bóta fyrir tjón sem er umfram það tjón sem leiddi af háttsemi sem lýst var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 og taldist uppgert með sáttinni. Í ljósi framangreinds var afar mikilvægt að í stefnu í máli þessu og matsgerð dómkvaddra matsmanna sem kröfugerð í málinu grundvallast á væri greint með skýrum hætti á milli afleiðinga þeirra samkeppnislagabrota sem bætt voru með fyrrnefndri dómsátt og afleiðinga ólögmætrar framkvæmdar á ákvörðun milligjalda á markaðshlutdeild og framlegð. Slíka greiningu er hins vegar ekki að finna í málatilbúnaði sóknaraðila. Þar af leiðandi verður ekki ráðið hvort og þá að hvaða leyti sóknaraðili hefur þegar fengið bætt það framlegðartap sem hann krefst að verði bætt í þessu máli.
 24. Af framangreindu leiðir jafnframt að sóknaraðili hefur ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á orsakasamhengi milli þeirra samkeppnislagabrota sem hann reisir málatilbúnað sinn á og þess tjóns sem hann krefur varnaraðila nú um bætur fyrir.
 25. Samkvæmt d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má dómkröfur og málsástæður sem málsókn er byggð á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Í þessum áskilnaði hefur verið talið felast að ljóst verði að vera hvaða samhengi sé milli kröfugerðar, lýsingar á málsástæðum og málatilbúnaðar að öðru leyti. Samkvæmt framansögðu uppfyllir málatilbúnaður sóknaraðila ekki þessar kröfur og eru svo verulegir annmarkar á honum að ekki verður hjá því komist að vísa aðalkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum frá héraðsdómi.
 26. Með vísan til framangreinds þykir sóknaraðili heldur ekki hafa með málatilbúnaði sínum lagt þann grundvöll að kröfu sinni um skaðabætur að unnt sé að ákvarða fjárhæð þeirra að mati dómsins og verður fyrstu og annarri varakröfu sóknaraðila því jafnframt vísað frá héraðsdómi.
 27. Þriðja varakrafa sóknaraðila er þrískipt en kröfuliðirnir lúta allir að viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna sömu brota gegn samkeppnislögum og aðrar kröfur hans eru reistar á en taka þó til lengra tímabils eða áranna 2003 til 2015. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í fjölda dóma Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Með vísan til þeirra vankanta á málatilbúnaði sóknaraðila sem áður hefur verið lýst hefur hann ekki leitt að því nægar líkur að hann hafi orðið fyrir tjóni og ekki gert nægilega skýra grein fyrir því hver séu tengsl þess við ætlað skaðaverk. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa öllum kröfuliðum þriðju varakröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.
 28. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
 29. Sóknaraðili verður úrskurðaður til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kortaþjónustan hf., greiði varnaraðilum, Arion banka hf., Borgun hf., Íslandsbanka hf., Landsbankanum hf. og Valitor hf., hverjum fyrir sig 500.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2018

1. Mál þetta var höfðað 28. september 2017 og tekið til úrskurðar 23. febrúar 2018. Stefnandi er Kortaþjónustan hf., Rafstöðvarvegi 7 í Reykjavík. Stefndu eru Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, Borgun hf., Ármúla 30, Reykjavík, Íslands­banki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykja­vík, og Valitor hf., Dalshrauni 3, Hafnarfirði. 

2. Stefndu krefjast frávísunar málsins auk máls­kostnaðar. Stefnandi krefst þess að kröfu stefndu um frávísun og málskostnað verði synjað. Efniskröfur stefn­anda eru: Að stefndu greiði stefnanda óskipt 922.921.239 kr. með drátt­ar­vöxt­um, sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 30. júní 2016 til greiðslu­dags. Stefn­andi gerir þrjár varakröfur. Fyrsta varakrafa er að stefndu greiði stefn­anda óskipt skaða­bætur auk vaxta og dráttarvaxta að mati dómsins. Önnur varakrafa er að hver hinna stefndu greiði stefnanda skaða­bætur auk vaxta og dráttarvaxta að mati dómsins. Þriðja varakrafa er þrískipt. – Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. gagnvart stefnanda vegna brota á 12. gr., sbr. 10. gr., samkeppnislaga nr. 8/1993, lög nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með verð­samráði sem fólst í ein­hliða ákvörðun stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milli­gjöld fyrir greiðslukort á tímabilinu 2003–2015, eða skemmra tímabili að mati dóms­ins. – Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Arion banka hf., Íslands­banka hf. og Landsbankans hf. gagnvart stefn­anda vegna brota gegn 10. gr. samkeppnis­laga nr. 8/1993, lögum nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efna­hags­svæð­ið, sbr. lög nr. 2/1993, með verð­sam­ráði sem fólst í samningum um ein­hliða ákvörð­un stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milli­gjöld­ fyrir greiðslu­kort á tímabilinu 2003–2015, eða skemmra tímabili að mati dómsins. – Að viður­kennd verði skaða­bóta­ábyrgð stefndu Arion banka hf., Íslands­banka hf. og Lands­bankans hf. gagn­vart stefnanda vegna brota á 11. gr. sam­keppnis­laga nr. 8/1993, lögum nr. 44/2005 og 54. gr. samningsins um Evrópska efna­hags­svæð­ið, sbr. lög nr. 2/1993, sem fól­ust í því að gera aðrar kröfur til stefn­anda en til stefndu Borg­unar hf. og Vali­tors hf., og hafa þannig mismunað stefnanda við samn­inga­um­leit­an­ir um milligjöld fyrir greiðslu­kort á tímabilinu 2003–2015, eða skemmra tímabili að mati dóms­ins. Stefndu hafa allir kosið að leggja einungis fram greinargerð kröfu um að málinu verði vísað frá dómi samkvæmt 2. mgr. 99. gr. einka­mála­laga.

3. Í máli þessu leitar stefnandi atbeina dómstóla til að fá hlut sinn réttan vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs stefndu um að halda honum frá greiðslukortamarkaði á Íslandi og koma þannig í veg fyrir að hann næði fótfestu og hlutdeild á greiðslukortamarkaði á árunum 2002 til 2015. Stefn­andi kvart­aði til Samkeppniseftirlitsins árið 2009 yfir því sem hann taldi vera víð­tækt ólög­mætt samráð um aðgerðir stefndu og fleiri gegn sér og stöðu sinni á greiðslu­korta­markaði. Á árinu 2015 gengust stefndu undir stjórn­sýslu­viðurlög, sektar­greiðslur, vegna brota sem þeir viður­kenndu að hafa framið gagnvart ákvæð­um samkeppnislaga og upp­lýst höfðu verið með rannsókn Sam­keppnis­eftirlitsins í kjölfar kvörtunar stefnanda. Brotin fólust meðal annars í því að stefndu höfðu samræmt svokölluð milli­gjöld, sem eru greiðslur sem færslu­hirðar (greiðslu­korta­fyrir­tækin) greiða útgefendum greiðslukorta (við­skipta­bönk­unum) fyrir þjónustu þeirra við söluaðila (kaupmenn) í greiðslukortaviðskiptum. Mark­aðs­sókn stefnanda á greiðslu­kortamarkað á Íslandi fór frá öndverðu og allt fram á árið 2012 fram í samstarfi stefnanda og danska fyrirtækisins PBS Inter­national og síðar, í kjölfar breytinga á eignarhaldi þess félags, norska fyrirtækisins Teller. Stefn­andi sjálf­ur tók ekki við hlutverki eiginlegs færsluhirðis fyrr en á árinu 2012. Fram að þeim tíma var stefnandi umboðsaðili hinna erlendu aðila og bauð sölu­aðilum uppá færsluhirðingu um kerfi hinna erlendu fyrirtækja. Stefnandi byggir á því að í samningum hans við hina erlendu aðila hafi verið umsamið að honum bæri þóknun fyrir hlutverk sitt sem að lágmarki skyldi nema 0,1% af þeirri greiðslu­kortaveltu sem kæmist í kring fyrir hans atbeina. Árið 2013 höfðaði stefn­andi mál á hendur stefndu sem í verulegum atriðum fjallar um sama sakar­efni og deilt er um í þessu máli. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017 var málinu vísað frá dómi með þeim rökum að málatilbúnaður stefnanda að því er varðaði samaðild eða samlagsaðild stefndu væri svo van­reifaður að færi í bága við d-, e- og g-liði 80. gr. einkamálalaga. Í dómi Hæsta­réttar í málinu nr. 239/2017, sem kveðinn var upp 1. júní 2017, var hinn kærði úrskurður stað­festur en á því byggt að svo mjög skorti á málatilbúnað stefn­anda að því er varð­aði upplýsingar um aðkomu og hlutdeild hinna erlendu sam­starfsaðila að óljóst væri hvort stefn­andi væri bær til að standa einn að mál­ssókn á hendur stefndu á þeim grunni sem hann hefði sjálfur lagt. Var mála­tilbúnaður stefnanda að því er þetta varðaði talinn vera svo óljós og vanreifaður að óhjákvæmilegt hefði verið að vísa málinu sjálf­krafa frá héraðs­dómi.

4. Stefndu reisa kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda sé í and­stöðu við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þeir telja skýringar stefnanda á kröfum sínum og tengsl þeirra við málsgrundvöllinn óljósan. Þá telja þeir samhengi krafna stefnanda og málsástæðna vera óljóst og ófull­nægjandi og að krafa stefnanda sé því vanreifuð. Þá telja stefndu allsendis óljóst á hvaða grunni stefnandi telji sig geta haldið uppi kröfu um óskipta ábyrgð stefndu sem þó byggi á mismunandi samningssamböndum þeirra innbyrðis. Stefndu telja raunar að málsaðild, bæði til sóknar og varnar, sé óljós með því að enn séu ekki fram komnar fullnægjandi upplýsingar eða gögn um aðild stefnanda. Þá vísa stefndu til þess að kröfugerð stefnanda að því er varðar viður­kenn­ing­ar­kröf­ur hans sam­kvæmt varakröfum sé þannig fram sett að fari í bága við ákvæði 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga svo að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úr­lausn hennar. Þá telja stefndu að reifun málsins í stefnu sé verulegum annmörkum háð að því er varðar skýrleika þeirra málsástæðna sem kröfur á hendur stefndu eru reistar á, auk þess sem á skorti að viðhlítandi sönnunargögn hafi verið lögð fram til stuðn­ings málatilbúnaði stefnanda. Þessir annmarkar séu svo verulegir að stefndu verði ekki gert að una því að stefnanda gefist kostur á að ráða bót á þeim undir rekstri málsins.

5. Stefnandi vísar til þess að sameiginleg aðild stefndu byggi á reglu samkeppnis­réttar um samfellda brotastarfsemi þannig að reglubundið samstarf stefndu til að ná sameiginlegu markmiði um að raska samkeppni leiði til þess að líta beri á hátt­semi þeirra sem samfellt samráð í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Vísar stefn­andi til þess að á slíkri reglu hafi íslenskir dómstólar byggt, t.d. í dómi Hæsta­rétt­ar nr. 142/2007. Þá vísar stefnandi til þess að hann hafi bætt úr þeim annmörk­um sem talið var að væru til staðar í dómi Hæsta­réttar nr. 239/2017 að því er varð­aði greinargerð hans um aðild hans að málinu. Þetta telur stefnandi sig hafa gert annars vegar með sérstakri greinargerð í stefnu í kafla III.3.3 og með því að leggja fram sem dskj. nr. 20 samstarfssamning sinn við PBS Inter­national frá 2002.

6. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017 í hinu fyrra máli stefnanda á hendur stefndu varð niðurstaðan sú að ekki yrði fram hjá því litið að lýsing stefn­anda á samkeppnislagabrotum stefndu byggði á því að annars vegar væri talið um að ræða samráðsbrot sem leitt hefði af samvinnu stefndu við­skipta­bank­anna þriggja og Valitors hf. sem samtaka. Hins vegar væri brot sem leitt hefði af sam­vinnu bank­anna þriggja og Borgunar hf. sem samtaka. Því virtust gögn þau sem byggt hefði verið á af hálfu stefnanda gefa til kynna að umrædd brot Borgunar hf. og Valitors hf. með bönkunum þremur, hefðu verið aðgreind og um sumt mis­mun­andi að eðli og umfangi. Gögn málsins hefðu þannig ekki gefið til kynna að um eitt samfellt brot allra stefndu væri að ræða, eins og stefnandi virtist byggja á kröfur sínar óskipt gagnvart stefndu. Því skorti það inn­byrðis samræmi í kröfu­gerð, framsetningu málsástæðna og framlagningu og inn­taki gagna af hálfu stefn­anda sem nauðsynlegt væri. Þess vegna yrði að líta svo á að málatilbúnaður stefn­anda væri vanreifaður og svo misvísandi að ekki yrði úr bætt undir rekstri máls og því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi gagnvart öllum stefndu, sbr. d-, e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

7. Í því máli sem hér er til úrlausnar eru enn til staðar allir sömu annmarkar á mála­til­búnaði stefnanda varðandi sam­eigin­lega aðild stefndu. Stefnandi reisir máls­sókn sína að drýgstum hluta á niðurstöðum and­mæla­skjals Samkeppniseftirlitsins frá því í mars 2013. Þá hefur stefnandi aflað ítarlegrar matsgerðar sem ætlað er að sanna tjón hans af ólög­mæt­um samkeppnisbrotum stefndu. Matsspurningar reisir stefnandi á niður­stöð­um nefnds andmælaskjals. Sá annmarki er á þessum máls­grundvelli að athug­un Sam­keppniseftirlitsins og svo í framhaldinu niðurstöður þess fjalla alls ekki um tjón stefn­anda. Grundvöllur kröfugerðar hans verður því ekki á þeim reistur nema með óbeinum hætti. Þessi vandi veldur því að samhengi kröfugerðar stefnanda við þær meginstoðir sem hún er reist á, and­mæla­skjal Sam­keppniseftirlitsins og mats­gerð hinna dómkvöddu matsmanna, er afar viðkvæmt. Ágallar á mála­til­búnaði stefnanda, hinar vanreifuðu forsendur sam­eigin­legrar aðildar stefndu og sú vanreifun sem fólgin er í því að stefnandi skýrir ekki með full­nægjandi hætti tengsl kröfugerðar sinnar við þær meginstoðir sem hún er reist á, myndu hvor um sig, að mati dómsins, nægja til frávísunar að kröfu stefndu. Fleira kemur þó til.

8. Í 1. mgr. 18. gr. einkamálalaga er kveðið á um skyldu til samaðildar að dómsmáli ef fleiri en einn eiga saman óskipt réttindi eða bera saman óskipta skyldu þar sem dómur um réttarstöðuna getur haft bein eða óbein áhrif á hagsmuni allra sem njóta réttindanna, eða allra sem bera skylduna. Ef játa á þeim sem að formi til eiga óskipt réttindi heimild til að sækja rétt sinn hver í sínu lagi verður að leggja á þá skyldu til að sýna fram á að unnt sé að skilja svo milli réttinda þeirra að hver þeirra geti sótt rétt sinn í dómsmáli án atbeina hins, sbr. reglu 2. mgr. 18. gr. einka­málalaga. Stefnandi hefur gert ráðstafanir til að bæta úr þeim ágöllum sem samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 239/2017 voru á reifun hans um aðild málsins sóknarmegin með nánari útlistun í stefnu á sambandi sínu við erlenda sam­starfsaðila sína og með því að leggja fram á dskj. nr. 20 samstarfssamning þeirra frá árinu 2002. Stefnandi hefur ekki kosið að stefna hinum erlendu sam­starfs­aðilum til aðildar að málinu eða til að þola dóm í þá veru sem hann gerir kröfur um. Stefnandi byggir á því að honum sé heimilt að sækja rétt sinn án atbeina hinna erlendu samstarfsaðila sinna með því að unnt sé að skilja milli réttinda þeirra, þannig að undir öllum kringumstæðum hafi honum samkvæmt samningi þeirra borið þóknun sem að lágmarki skyldi nema 0,1% af þeirri greiðslu­kortaveltu sem kæmist í kring fyrir atbeina hans. Í sóknar­gögnum málsins er þó ekkert að finna sem staðfestir þennan skilning stefnanda. Verður því ekki séð að stefnandi hafi sýnt fram á að hann sé einn bær til að standa að mál­ssókn á hendur stefndu á þeim grunni sem hann hefur kosið. Samkvæmt þessu, og með vísan til annarra galla á málatilbúnaði stefnanda, sem að framan er getið, er óhjá­kvæmilegt að vísa máli þessu sjálfkrafa frá héraðsdómi. 

9. Af hálfu stefndu fluttu málið lögmennirnir Dóra Sif Tynes, Stefán A. Svensson, Hörður Felix Harðarson, Gunnar Viðar og Halldór Brynjar Halldórsson. Af hálfu stefnanda flutti málið Grétar Dór Sigurðsson lögmaður. Ástráður Haraldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Stefnandi greiði hverjum stefndu 1.000.000 króna í málskostnað.